Vissulega myndast ójöfnuður

„... Það er að myndast ójöfnuður milli kynslóðanna en vissulega er þetta framboð og eftirspurn.“ lýkur frétt í sjónvarpinu og ég mjúta fréttatímann og hlusta þess í stað á vaskinn sem lekur úr inni á baði. Dripp dripp, ný hljóðmynd við fréttirnar. Dripp dripp, ógreinilegt myndskeið úr öryggismyndavél. Dripp dripp, lögregluborðar og skýrslur, sjúkrarúm, olíutankar, hálftómur alþingissalur, heitavatnsborholur og fólk sem grætur með gylltar styttur. Ég velti fyrir mér hvenær íbúðir hættu að vera heimili og urðu fyrirtæki. Dripp dripp.

Vissulega geng ég eftir þetta rakleiðis út í næsta bónus, nú opið til klukkan 20 alla daga mér til mikillar ánægju. Framboð og eftirspurn. Vissulega kaupi ég mér Stracciatella-engjaþykkni, sný við á sjálfsafgreiðslukassanum og kaupi lítra af ís, kippu af pilsner og stjörnupopp, spyr eftir vini mínum, nóa kroppi og loka augunum þegar verðið birtist á skjánum. Ég ætlaði bara að kaupa engjaþykkni, ljúfan eftirrétt frá MS, en ekki höggva skarð í heimilisbókhaldið, svona rétt fyrir lokun í grísinum bleika. Ég brýt heilann yfir verðmætum og hvers vegna verðmætustu störfin eru þau sem borga minnst. Dripp dripp. Vissulega.

Ég hugsa til foreldra vina minna sem opnuðu veitingahús í miðju kóvid. Innréttuðu staðinn og réðu fólk í vinnu. Elda mat eftir kúnstarinnar aðferðum og ráða tónlistarfólk fyrir fólk sem sleikir útum. Það eru verðmæti. Þau greiða svo leigusalanum á aðra milljón króna í lok mánaðar. Dripp dripp. Eða, það var fyrir ári, ætli leigan sé ekki vísitölutengd. Dripp dripp.

Hvað er hluthafi eiginlega? Er það bara einstaklingur sem hefur hlut?

Maður með úfið hár ætlaði að verða milljónamæringur þegar hann yrði stór, þiggur nú fjóra og hálfa milljón á mánuði og passar að lægstu laun nái örugglega ekki upp í framfærslu. Dripp dripp fyrir hverja keypta lúxusíbúð. Dripp dripp fyrir hvern gjaldfallinn reikning. Dripp dripp fyrir hann sem þénar. Dripp dripp fyrir hinn sem þjónar.

Innblástur

Innblástur. Gull þeirra sem skapa. Heilastuðtæki. Ósnertanlegur, dularfullur og dýrmætur kraftur. Að fyllast innblæstri er eins og að finna fimmþúsundkall í vasanum. Að vinna í lottói sem þú tókst ekki þátt í. Eða kannski er hann fræ í skítugum lófa sem hægt er að hlúa að svo úr verði skógur. 

Það er ábyggilega hægt að finna milljón myndlíkingar um innblástur, orðið sjálft er meira að segja ein slík, sem gefur til kynna að fyrirbærið sé eitthvað sem er utan við okkur og læðir sér inn í lungun. Kannski óreglulegir loftstraumar af hugmyndum sem hægt er að anda að sér af tilviljun.

Við listafólk lifum í samlífi við innblástur. Eins og sveppir og þörungar í fléttum, getum við ekki án hins verið. Listafólk býr til strúktúr fyrir innblásturinn, eins og sveppur. Bækur, myndir, hönnun eða hvað annað form, og innblásturinn útvegar næringu, eins og þörungurinn. Hugmyndir, myndir í huga, lítil leiftur sem gera listafólki kleift að halda áfram störfum sínum og er mótefni gegn loddaralíðan. 

Innblástur er þó ekki hægt að panta og er það eilíf áskorun að búa svo um að hægt sé að fyllast sem oftast innblæstri. Í leit minni að fyrirbærinu hef ég komist að ýmsu og langar mig að deila með ykkur heiðarlegri tilraun til að henda reiður á þetta skapandi afl. Í grundvallaratriðum flokka ég innblástur í tvo flokka:

Innblástur sem kemur í vinnu og

innblástur utan vinnu

Innblástur í vinnu er auðvelt að skilgreina og slíkur innblástur er mikilvægastur, þar sem við höfum einhverja stjórn á honum. Ég sest niður og hefst handa við verkefni, eins og þennan pistil til dæmis, og á meðan vinnunni stendur þá spretta upp hugmyndir og pælingar sem ég skrifa niður á blað. Úr einni hugmynd sprettur önnur og svo framvegis. Við þetta nota ég ýmis tól, blöð og penna, skissubækur, hugarkort, tölvur og ritvinnsluforrit. Þennan innblástur leita ég uppi og haga seglunum eftir vindi. Dugnaður, iðni og agi, alvöru vinna. Mæta í vinnuna á morgnana, skapa og móta eins og námuverkamaður vinnur málma úr jörð. En ef agi væri eina forsenda listafólks fyrir frumsköpun væri greinin allt önnur og steríótýpan af hinum lata listamanni ekki til. Því stundum lægir innblásturinn í vinnu og við dúum föst á haffletinum í skapandi logni. Sama hvernig við högum seglunum þá færumst við ekki úr stað. Við skrifum og skrifum og skissum og skissum, en ekkert gerist. 

Þá þarf að leita annað, eða, hætta að leita.

Ef ég man rétt heyrði ég einhverntímann Guðrúnu Evu Mínervudóttur tala um að hún væri byrjuð að skrifa minna til þess að skrifa meira. Það var skrítin þversögn. Eitthvað kviknaði, ég fann kitl í lungunum og það kom upp mynd í hugann. Varð fyrir innblæstri. Ég ímyndaði mér listafólk eins og fýsibelg. Sem dregur inn loft og blæs því á glóðir, kyndir í báli. Vinnan er útblástur belgsins og þegar hann tæmist, þarf innblástur til að fylla hann á ný. En hvernig?

Mín tilgáta er að besta ástandið til þess að verða innblásinn sé í ró. Að vera að vinna, jafnt og þétt, en fara alltaf í ró þegar á þarf. Þá opnast lungun. Í ró kviknar athygli og forvitni. Í ró fær hugurinn að reika. Úti að skokka, í strætó, hlustandi á tónlist, lesandi bók, á spjalli við vini, á leiksýningu, í bíói, á tónleikum eða einfaldlega horfandi út í loftið. Í leti. Lati listamaðurinn. Í ró þenst hugurinn smátt og smátt út. Verður eins og innblásinn fýsibelgur. 

Tilvera, tímamót og draumar

Í fjórða og síðasta pistli mínum um loftslagsmál fjalla ég um tímamótin sem við stöndum á í dag. Ég fjalla um fræ ímyndunaraflsins, leiðarljós drauma og þau lamandi áhrif sem stríð hafa á huga okkar.

Read More

Fórnir og framfarir

Í mínum þriðja pistli um loftslagsmál skoða ég afstöðu okkar gagnvart loftslagsaðgerðum. Til umfjöllunar er línulegt hagkerfi, velsældarmælikvarðar, veruleiki kulnunarkynslóðarinnar og Monty Python.

Read More

Um ábyrgð(arleysi) einstaklingsins

Í öðrum pistli mínum um loftslagsmál fjalla ég um ábyrgð. Ég skoða markaðsherferð jarðefnaeldsneytisfyrirtækisins BP, styrki til mengunargeirans og þær afleiðingar sem hugtakið kolefnisspor hafði á upplifun okkar af loftslagsbreytingum.

Read More

Tími, stærð og umfangsdeyfð

Þetta er fyrsti pistill í fjögurra pistla seríu um loftslagsmál. Hér fjalla ég um stærð og tíma. Reifaðar eru mikilvægar merkingarleysur, mælieiningar, geimurinn og vanhæfni mannsins til þess að glíma við magn og lengd.

Read More

Infrastructure of mind

A translation of my article about the Icelandic artist fund. I write about the meaning of art, about art’s restrictions and contradictions in the economy of capitalism, our relation to it as a product and suggest that we view it as an infrastructure instead.

Read More

Innviðir hugans

Pistill um starfslaun listamanna og eðli listar. Í pistlinum færi ég rök fyrir því að list ætti ekki að vera flokkuð sem vara heldur sem innviðir. Ég skoða gildi hennar og hagkerfið sem umlykur list og reynir að beygja hana að kapítalískum lögmálum. Í pistlinum fjalla ég um hvers vegna listamannalaun eru svona umdeild og hvers vegna list á erfitt með að réttlæta tilveru sína í samfélagi dagsins í dag.

Read More