Tilvera, tímamót og draumar

Iðandi vin

Ég stend á svölum í fjölbýlishúsi með ilmandi tebolla í hönd, teið er úr blóðbergi sem ég rækta á svölunum. Það loðir dögg við bleik blómin. Ég er berfættur í grasinu og horfi yfir Reykjavík, sem minnir ekki lengur á borg. Milli trjástofna og innan í runnum eru stórir gluggar húsa, þökin þakin birkikjarri og strætisvagnar líða hljóðlátir í gegnum gróðurgöng sem tengja húsin. Fuglar eru alls staðar, ég fleygi brauðmylsnu niður á gróðurinn og fylgist með tístandi skaranum tína hana í sig. Á jörðinni gengur fólk eða hjólar, í skólann, í vinnuna, búðina. Stöku sendibíll, strætó og leigubíll. Sólin er nýrisin og vatnsgufa stígur upp úr skógi þakinni borginni. Ég anda að mér ferskleikanum. Ilmvöndurinn er eins og barmafullt vatnsglas af vori. Ég er í skjóli, veðurfarslegu, andlegu, í borg í faðmi náttúru.                   

            Ég er staddur í draumi. Í þessum draumi er Ísland gróið með fjölbreytta dýraflóru, en hvergi er eins mikið líf og í borgunum vegna þess að maðurinn er segull á jarðveg. Hingað eru flutt hundruð tonna af mat á degi hverjum og öllum næringarefnunum sem eftir verða er safnað saman. Hér er besta moldin, stærstu plönturnar í mesta skjólinu. Skordýr eru úti um allt og fuglar njóta þeirra. Í þessum draumi eru borgir ekki dauðhreinsaðar heldur safna lífi, plöntum, fuglum, köttum, refum, sveppum, skordýrum. Ekki steyptar eyðimerkur heldur iðandi vinjar.

 

Samhengi loftslagsbreytinga er ómögulegt að ná utanum en nálgunin sem ég hef sett fram í þessari pistlaröð um þær er einföld og horfir til nokkurra huglægra stólpa. Við þurfum að horfa til þess hver ber ábyrgðina og þrýsta á að þeir ábyrgðaraðilar axli þá ábyrgð. Nálgast þarf loftslagsaðgerðir sem tækifæri til framfara en ekki fórn á nútímaþægindum og við þurfum að hverfa frá gildum nútímans sem orsaka ofnýtingu og móta samfélag sem grundvallast á meiri gæsku gagnvart umheiminum.

            Að móta samfélag gæsku, það er fallegur draumur. Þennan lokapistil tileinka ég ímyndunaraflinu, draumum og von, einhverjum mikilvægustu tækjum þessara merkustu tíma mannkynssögunnar.

 

Tímamót

Sama hvað gerist verða tímarnir sem við nú lifum skrifaðir í sögubækur. Blaðsíðurnar eru gljúpar, við höldum óviss um pennann og tíminn krefur okkur um sögu. Ritum við sögu grænna umskipta, um hina miklu stefnubreytingu, eða hripum við umhugsunarlaust niður tíma hinnar miklu frestunar, upphaf keðjuverkana?

Tímamót, eins og þau sem við stöndum á í dag, eru falleg blanda framtíðar og fortíðar. Tímamót eru staðurinn þar sem gildi breytast, einstaklingar og samfélög þroskast. Skil milli þess sem var og þess sem verður. En þau verða ekki af sjálfu sér. Eins og lest sem ferðast milli brautarpalla, það verður að stíga úr henni, niður á brautarpall tímamóta. Það er hægt að missa af.

Ef við bregðumst ekki við verður nútíðin neðanmálsgrein, hvorki upphafið né endalokin heldur skömmustuleg miðja. Ef við stígum niður á brautarpallinn, gerum stefnubreytingu, hefjum við nýjan kafla. Tómar, gljúpar blaðsíður. Gjörðir okkar orð.

 

Fræ ímyndunaraflsins

Á brautarpalli tímamóta tekur ímyndunaraflið á móti okkur, eins og gamall kunningi. Á tímamótum opnast möguleikar á veruleikum sem okkur hefði ekki getað dreymt um. Á tímamótum getum við sagt skilið við hingað til ómissandi hluti og getum tekið á móti veruleika sem hingað til var óhugsandi. Þar geta ímyndaðir hlutir orðið sannir og fyrrum sannir hlutir gömul minning.

Þessi gamli kunningi sáir fræjum sem eru hugmyndir. Þessar hugmyndir geta vaxið, orðið sprotar sem stækka og gildna smátt og smátt. Og ef nógu mörgum hugmyndum er sáð í nógu frjóan jarðveg vex þar upp nýtt lífríki veruleika. Fræ verður skógur.

Í samfélagi dagsins í dag sjáum við nú þegar sprota græns veruleika stinga upp höfðinu hér og hvar í samfélaginu. Hringrásarverslanir, jarðvegsgerð, örflæðisamgöngur. Alls ekki fullvaxta plöntur, en vænlegir sprotar. Ég elst upp í heimi þar sem ekkert var lagað, nýtt keypt og gömlu hent. Í dag sé ég nokkra græðlinga sem gætu orðið upphafið að framtíð þar sem verkstæði, skósmiðir, saumastofur gætu orðið algengari en verslanir. Hvað ef framtíðin býr yfir viðgerðarkjörnum í stað verslunarmiðstöðva?  

Veruleiki loftslagsbreytinga gefur til kynna að nútíminn sé visnandi skógur og án ímyndunaraflsins verður engin endurnýjun, engin ný framtíð. Ímyndunaraflið verður að taka alvarlega því þar blómstra framfarir, þar vex tilgangur og veruleiki. Þessi gamli kunningi vísar okkur veginn frá brautarpallinum, í nýja tilveru.

 

Ný og gömul ævintýri

Ævintýri æsku minnar voru uppfull af landkönnuðum, gullgreftri, ljónum og fílum. Í dag er landkönnun lokið, gullnámur einkavæddar og hin stóru dýr Afríku eru í útrýmingarhættu. Ævintýri æsku minnar urðu að sorglegri sögu gullæðis sem skyldi eftir sig draugabæi, ruslahauga, sár á jörðu og sál.

Nýja ævintýri mannkyns mun ekki einkennast af því hvernig maðurinn uppgötvar heiminn og temur hann. Nýja ævintýri mannsins snýst um að sleppa kyrkingartakinu sem hann hefur á umhverfi sínu. Það snýst um hvernig maðurinn uppgötvar smátt og smátt að það sem hann leitaði að, fegurðin sem hann vildi finna í fjarlægum löndum er allt í kringum hann. Nýja ævintýrið er ævintýrið um manninn sem hætti að kveða sér hljóðs og byrjaði að hlusta, það fjallar um dauða græðginnar og upprisu gæskunnar, um samfélag sundurleitra gullgrafara sem grófu loks stríðsaxirnar fyrir jörðina, um manninn sem varð loksins sáttur í eigin skinni. Í þessu nýja ævintýri erum við skáldið, gjörðir okkar orð.

Við höldum óviss um pennann og kringum okkur spretta upp brenninetlur og nytjajurtir. Hvort skrifum við upp nýtt ævintýri mannkyns sem dansaði í sjálfbærum ryþma við umhverfi sitt eða sósíal-realíska tragedíu aðgerðarleysis?

 

Brautarpallur / að dreyma

Við stöndum á brautarpallinum, gamall kunningi okkur við hlið. Á bak við okkur hlykkjast teinar fortíðar með öllum sínum beygjum, jarðgöngum og brúm. Þaðan sem við komum angar loftið af sætum reyk. Olía, sót, malbik. Lestin pústar, þeytir flautu. Margt undurfallegt hefur orðið á leið okkar og margt hrikalegt, farþegar margvíslegir. Útdauðar dýrategundir liggja í brautarkantinum og þessi sæti reykur leggst ofan á fortíðina eins og malandi skrímsli.

Við snúum okkur fram, horfum áfram veginn og sjáum hvernig hann brotnar upp í marga litla stíga sem tvístrast hingað og þangað, inn í þokuna. Framtíðin er alltaf sveipuð þoku. Hún er ótrygg, leiðin óþekkt. En einhvers staðar í fjarska glitra ljósgeislar sem kljúfa þokuna, hlýir á kinnunum. Það eru geislar af draumi. Við finnum þunga bakpokans grafa axlarólarnar í herðar okkar. Ógnvænlegur vindur hefur sig á loft og ræðst að okkur en við flýjum ekki í skjól. Við breiðum út faðminn og tökum hann í fangið. Finnum kraftinn þegar við skynjum eigin styrk. Við finnum hvað við erum heppin að vera akkúrat hér, akkúrat núna. Við erum fólkið sem markar leiðina.

 

Draumar eru leiðarljós og sprotar hugmynda ljóstillífa drauma. Við munum hrasa um holur og fara vegleysur. Við fyrstu sýn virðist leiðin ófær en draumar leiða í ljós útfærslur og stíga. „Við munum koma manni til tunglsins“, sagði forseti Bandaríkjanna án þess að vita hvernig það yrði gert. „Ég á mér draum“ sagði Martin Luther King, hann sagði ekki „ég þekki leiðina.“

            Í upphafi þessa pistils lýsti ég draumi sem ég á um skógi vaxna Reykjavík. Þegar ég byrja að hugsa um hvaða skref þarf að taka til að útfæra slíka borg kem ég strax auga á alls konar vandamál, skort á fjármagni og samvinnu til dæmis. Alls konar ómöguleika sem stangast á við venjur, hefðir og reglugerðir. En ég læt drauminn skína og fræ ímyndunaraflsins stinga upp höfðinu til móts við hann. Það merkilega við drauma er að þeir eru einungis það, draumar, þangað til þeir rætast.

 

p.s.

Þegar ég rita þennan pistil er ég staddur í Finnlandi. Finnland deilir hundruðum kílómetra landamæra með Rússlandi og Rússar eru nýbúnir að ráðast inn í Úkraínu.

            Mér þykir furðulegt að rita um drauma og ímyndunarafl þegar stríð geisar, það virðist svo lítilvægt. Stríð er þess eðlis að það skyggir á allt annað. Stríð kæfir drauma, bælir ímyndunarafl og myrkvar framtíð. Eins og svart óveðursský. Stríð er ekki einungis árás í efnisheimi heldur rænir það huga og hrifsar til sín von. Stríð er fólskuleg árás valdhafa á það sem okkur finnst mestu máli skipta, á vinskap, virðingu, ást, lífið í allri sinni dýrð. Líf íbúa, hermanna, ættingja, vina. Stríð smækkar mennsku og rýfur heilagleikann.

            Á slíkum tímum er auðvelt að sleppa draumum sínum og deyfa ímyndunaraflið. Það er auðvelt að frjósa frammi fyrir slíku óveðri en það má aldrei missa sjónar á draumnum um framtíðina, þá villumst við.